Stoðþjónusta
SérkennslaMeginmarkmið með sérkennslu er að stuðla að alhliða þroska nemenda, bæði andlegum og líkamlegum. Leitast er við að ná þessu markmiði með jákvæðu viðmóti og virðingu fyrir einstaklingnum um leið og lögð eru fyrir verkefni við hæfi. Sérkennsla getur falið í sér breytingar á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og kennsluaðferðum. Hún er skipulögð í lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans, jafnvel alla skólagöngu hans. Sérkennsla einstakra nemenda eða hópa fer fram innan eða utan almennra bekkjardeilda. Gerðar eru námsáætlanir fyrir alla nemendur sem eru með greindan námsvanda. Áætlanirnar eru gerðar í upphafi skólaárs. Kennarar sem annast sérkennslu bera ábyrgð á gerð námsáætlana í samráði við umsjónarkennara og ræða þær við foreldra í fyrra foreldraviðtali vetrarins. Einstaklingsnámskrá er námsáætlun fyrir einstakling þar sem markmiðin eru fyrst og fremst sniðin að þörfum hans en taka þó mið af markmiðum árgangsins. Einstaklingsnámskrá getur falið í sér námsáætlun í mörgum námsgreinum fyrir sama einstakling eða einungis áætlun í einni grein. Þegar um mikil frávik frá skólanámskrá er að ræða koma sérkennari, umsjónarkennari og foreldrar að gerð slíkra áætlana í upphafi hvers skólaárs. Sérkennari sér um að útfæra áætlunina og bera hana undir samþykki foreldra. Þá eru haldnir fundir reglulega þar sem farið er yfir gang mála í námi og líðan nemandans og gerðar tillögur að áherslubreytingum.
SálfræðiþjónustaSálfræðiþjónusta (greining og ráðgjöf) gagnvart einstökum nemendum er gerð í kjölfar beiðni, sem þarf að gera á þar til gerðu eyðublaði sem fæst í skólanum. Forráðamenn barna, starfsmenn skóla, starfsmenn félagsþjónustu og heilsugæslu geta átt frumkvæði að athugun og greiningu á einstökum nemendum. Beiðnir fara í gegnum umsjónarkennara, og/eða stjórnendur skólans. Samþykki forráðamanna skal liggja fyrir áður en athugun og greining er gerð á einstökum nemendum. Öll mál varðandi sérfræðiþjónustu fara í gegnum nemendavernd skólans.
Vandamál þeirra barna er vísað er til skólasálfræðings þurfa að hafa, eða vera líkleg til að hafa, áhrif á nám þeirra. Helstu viðfangsefni skólasálfræðingsins eru vanlíðan nemenda, frávik í hegðun, áföll og áhyggjuefni heimila varðandi nemendur. Sé fullnægjandi greining eða ráðgjöf gagnvart vanda einstakra nemenda ekki á færi eða verksviði skólasálfræðings Auðarskóla skal skólinn leiðbeina forráðamönnum og eftir föngum útvega viðeigandi þjónustu. LausnaleitUndanfarin átta ár hefur verið unnið með verkefnið „Lausnaleit“ í Auðarskóla. Þar er unnið með einstaklingsmiðaðar stuðningsáætlanir byggðar á virknimati sem er lausnamiðað ferli til að takast á við fjölþættan vanda, þ.e. náms- og hegðunarlegum hjá nemendum. Þessi vinna byggir á atferlisgreiningu.
Framkvæmd og umsýsla er í höndum Sesselju Árnadóttur. Ef foreldrar vilja sækja um þetta fer það í gegnum sérfræðiþjónustu skólans. ![]()
![]()
|
SkólaráðgjöfSkólaráðgjafi sinnir sérkennsluráðgjöf og greinir námsvanda auk þess að veita ráðgjöf skóla og heimili varðandi nám og kennslu. Á hans starfssviði eru:
Sérkennari sinnir fyrstu lestrar- og stærðfræðigreiningum. FélagsþjónustaSamningur er við Borgarbyggð um félagsþjónustu og þjónustu í barnaverndarmálum. Undir þann samning falla fjárhagsaðstoð, félagsleg ráðgjöf, félagsleg liðveisla og annar stuðningur við fatlað fólk og fjölskyldur fatlaðra barna, leyfisveitingar vegna daggæslu í heimahúsum og barnavernd. Fulltrúi félagsþjónustunnar er á hálfsmánaðarfresti til viðtals. Upplýsingar um komudaga eru á www.dalir.is
NýbúakennslaÞegar nemandi erlendis frá hefur nám við skólann er boðað til móttökuviðtals. Skólastjórnandi og sérkennari sitja viðtalið ásamt túlki ef þurfa þykir. Í kjölfar þess er þörf fyrir nýbúakennslu metin. Kennslan fer fram sem einstaklings- eða hópkennsla. Aðaláhersla er á íslenskunám, en einnig á félagslega aðlögun nemendanna. Tilgangurinn með nýbúakennslunni er að styrkja nemendur, með annað móðurmál en íslensku eða þá sem lengi hafa dvalið erlendis, til þátttöku í íslensku skólastarfi. Nemendur fá þjálfun í íslensku máli og tækifæri til að þróa þekkingargrunn sinn og læsi. Markmiðið með kennslunni er að nemendur verði færir um að skilja og nota íslenskt mál og geti þannig tjáð skoðanir sínar, hugmyndir og tilfinningar. Tilgangurinn er einnig að efla sjálfstraust og öryggi þessara nemenda og um leið að auka vellíðan þeirra og áhuga. Í nýbúakennslunni eru nemendur einnig hvattir til að viðhalda kunnáttu í móðurmáli sínu og að halda tengslum við föðurlandið.
HeilsugæslaHeilsugæsla skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd og hluti af heilsugæslunni. Skólaheilsugæslan leitast við að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Skólahjúkrunarfræðingur vinnur í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda. Farið er með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál.
Reglubundnar skoðanir og bólusetningar Heilsufarsskoðanir fara fram í 1., 4., 7. og 9. bekk. Skoðunin felur í sér sjónpróf, hæðar- og þyngdarmælingu auk fræðslu og viðtals um lífsstíl og líðan. Bólusetningar eru í 7. og 9. bekk 7. b. 22 Mislingar, rauðir hundar og hettusótt (ein sprauta) og HPV gegn leghálskrabbameini hjá stelpum (2 sprautur á 6 mánuðum) 9. b. Mænusótt, barnaveiki, stífkrampi og kíghósti (ein sprauta). Nemendur í öðrum árgöngum eru skoðaðir ef ástæða þykir til. Ef líkur eru á að barnið sé ekki að fullu bólusett þá eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólaheilsugæsluna. Fræðasla og forvarnir Skólahjúkrunarfræðingur sinni skipulagðri heilbrigðisfræðslu í öllum bekkjum skólans. Aðaláherslan er á 6H heilsunnar en hugmyndafræðin byggir á því að hugsa vel um heilsuna og fyrirbyggja þannig sjúkdóma. 6H heilsunnar eru: Hreyfing, hvíld, hamingja, hreinlæti, hugrekki og hollusta. Skólahjúkrunarfræðingur sinnir einnig kynfræðslu í efri bekkjum skólans þar sem farið er yfir kynþroskann, kynheilbrigði, kynsjúkdóma, getnaðarvarnir ofl. Börn og foreldrar geta leitað eftir ráðgjöf og stuðning skólahjúkrunarfræðings hvenær sem þurfa þykir yfir skólaárið. Nánari upplýsingar má sjá á: www.heilsuvera.is www.landlaeknir.is Skólahjúkrunarfræðingur í Auðarskóla er: Þórunn Björk Einarsdóttir Thorunn.Einarsdottir (hjá) hve.is |
Uppfært: September 2020