Annars hefur fjarkennslan í Auðarskóla í gegnum Teams gengið vel og nemendur hafa verið að skila verkefnum þar í gegn ásamt því að taka próf bæði á unglingastigi sem og miðstigi. Eins hafa kennarar verið að halda fundi með nemendum í gegnum Teams og verið í bréfaskriftum með tölvupóstum. Sem dæmi má nefna að upplestrarkeppni 7. bekkjar fór fram í gegnum Teams-Stream, þ.e. nemendur lásu þar og kennarar tóku upp og hefur upplestur þeirra þegar verið sendur til dómaranna sem munu síðan skera úr um hver verður fulltrúi Auðarskóla í stóru upplestrarkeppni samstarfsskólanna í maí.
Við höfum lært mikið af þessu öllu sem skóli bæði kennarar og nemendur og má því segja að þessir fordæmalausu tímar sem við lifum nú á hafi fært okkur eitthvað jákvætt. Ég tel víst að þessi kunnátta eigi eftir að nýtast okkur í framtíðinni og við munum örugglega notfæra okkur hana við ýmis tækifæri þó vonandi aldrei við þær aðstæður sem nú eru í heiminum.
Þorkell Cýrusson aðstoðarskólastjóri