Auðarskóli |
Þriðjudaginn 2. júní 2020 útskrifuðust 8 börn úr leikskólanum. Athöfnin fór fram í Dalabúð. Við útskriftina var börnunum afhent útskriftarskjöl en einnig gáfu Stína og Jóhanna þeim blóm og gjöf frá leikskólanum. Haldin var ræða þeim til heiðurs þar sem stiklað var á stóru um leikskólagöngu þeirra og þeim færðar óskir um bjarta framtíð og farsældar á nýjum vettvangi. Myndasýning af börnunum var látin rúlla þar sem birtar voru myndir af þeim allt frá upphafi leikskólagöngu og til dagsins í dag. Eftir myndatökur var boðið upp á veitingar í efri sal Dalabúðar. Kökurnar bakaði þessi flotti útskriftarhópur í heimilisfræðistofu grunnskólans undir stjórn Írisar Drafnar. Við óskum útskriftarbörnunum innilega til hamingju með áfangann um leið og við þökkum þeim og fjölskyldum þeirra samfylgdina undanfarin ár. Kveðja frá starfsfólki leikskólans. Til hamingju með áfangann kæru börn!
Miðvikudaginn 27. maí lá leið okkar á miðstiginu að Laugum í Sælingsdal og gerðum við okkur glaðan dag í lok skólaárs. Einn liður í vorverkum okkar er að útskrifa 7. bekkinn af miðstiginu og er það gert þannig að aðrir nemendur miðstigsins takast á við 7. bekkinn í ýmis konar leikjaformi. Á milli áskorana tókum við einn laufléttan ratleik um staðinn og nutum í mildum rigningarúðanum. Í hádeginu var slegið upp hamborgara- og pylsuveislu sem líktist helst hinni árlegu veislu mömmu Emils í Kattholti. Að áti loknu dýfðum nemendur sér í laugina, tóku sundtök og glensuðust smá. Lítið mál að eiga góðan dag með hópi sem er alltaf tilbúinn að hafa gaman, saman Óvenjulegu skólaári í Auðarskóla er nú lokið og hafa skólaslit farið fram en þó með óhefðbundu sniði. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það ástand sem hefur verið í samfélaginu og mestum hluta heimsins því það væri að bera í bakkafullann lækinn sem varð til þess að skólaslit voru með breyttu sniði.
Skólaslit Auðarskóla fóru fram þriðjudaginn 2. júní síðast liðinn í beinu framhaldi af Vorhátíð skólans. Vorhátíðin okkar var með hefðbundu sniði að því undanskyldu að foreldrafélagið var ekki með hefðbundið grill þennan dag og það var að ósk skólans en í venjulegu árferði er foreldrafélagið velkomið eins og hingað til. Í stað þess sáu starfsmenn um að grilla pylsur fyrir nemendur og starfsfólk. Skólaslit 1. – 9. bekkjar fór svo fram í Dalabúð í lok Vorhátíðar sem gekk vel. Engir foreldrar voru þar enda ekki æskilegt vegna samkomubanns. Seinna sama daginn voru svo skólaslit fyrir 10. bekk í Dalabúð sem var með hefðbundnu sniði þar sem 10. bekkur var kvaddur og þakkað fyrir samstarfið í síðastliðinn 10 ár með óskum um gott gengi í hverju því sem þau taka sér fyrir í framtíðinni. Nemendur fluttu þakkarræður, sem og umsjónarkennarar og skólastjóri. Kvenfélagið Þorgerður Ingólfsdóttir færði skólanum bókagjöf sem er orðinn árlegur atburður á skólaslitum og færum við þeim bestu þakkir fyrir að hugsa til okkar á þennan hátt. Í lok skólaslita var síðan kaffisamsæti fyrir 10. bekkinga, gesti þeirra og starfsfólk. Tónlistaratriði voru frá tónlistardeild Auðarskóla á báðum skólaslitum. Hólmfríður Tania nemandi í 10. bekk söng fyrir okkur og skólahljómsveitin okkar flutti Hey, Jude gamla Bítlalagið eins spilaði hljómsveit starfsmanna undir fjöldasögn nemenda sem er vonandi komið til að vera. Auðarskóla starfsárið 2019-2020 er því slitið og óskum við öllum gleðilegs sumars og hlökkum til að sjá alla okkar nemendur næsta starfsár. |
Á næstunni
|